Félag heyrnarlausra sendir áskorun til alþingismanna

Í morgun sendi Félag heyrnarlausra öllum alþingismönnum áskorun þar sem farið er fram á að táknmál verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra, allt efni í sjónvarpi verði textað svo heyrnarlausir eigi greiðari aðgang að upplýsingum svo og lausn á túlkamálum.

Áskorun Félags heyrnarlausra til alþingismanna
„Heyrnarlausir á Íslandi búa við einangrun sem þarf að rjúfa til að þeir standi jafnfætis öðrum íslenskum þegnum. Þrjú atriði standa þar upp úr og skorum við á alþingismenn að bæta úr þeim.

1. Íslenskt táknmál verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra
Félagið skorar á alþingismenn að beita sér fyrir að íslenskt táknmál verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Þetta er eitt af brýnustu réttarbótum í málefnum heyrnarlausra og hefur lengi verið baráttumál okkar.

2. Fundin verði varanleg lausn á túlkun fyrir heyrnarlausa
Við skorum á alþingismenn að finna varanlega lausn á túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Þjónustan nær nú til samskipta við heilbrigðisyfirvöld, stofnanir og skóla en hana skortir í öllum öðrum samskiptum svo sem fasteignakaupum, heimsóknum til lögmanns og fleira.

3. Textun innlends sjónvarpsefnis verði skylda
Við skorum á alþingismenn að setja það í lög að skylt verði að texta allt innlent sjónvarpsefni. Textun veitir heyrnarlausum fullkomið aðgengi að upplýsingum sem er sjálfsögð mannréttindi og mikið jafnréttismál.

Það þarf ekki stórar fjárhæðir til þess að koma ofangreindum bótum á. Þetta gæti hins vegar breytt miklu fyrir líf fólks sem alla sína ævi hefur búið við einangrun í allsnægtasamfélagi," að því er segir í áskorun Félags heyrnarlausra.

Undirskriftarsöfnun til stuðnings við Félag

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert