Ráðstefna um bann við klasasprengjum hefst á morgun

Rauð málning varar við ósprunginni klasasprengju í þorpinu El Maalliye …
Rauð málning varar við ósprunginni klasasprengju í þorpinu El Maalliye í suðurhluta Líbanons AP

Fjörutíu og átta þjóðir munu taka þátt í ráðstefnu um bann við notkun klasasprengna sem Norðmenn hafa boðið til. Ráðstefnan hefst á morgun þrátt fyrir að mikilvægir aðilar á borð við Bandaríkjamenn, Kínverja og Rússa ætli ekki að taka þátt. Steve Goose, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, segir að tilgangur ráðstefnunnar sé ekki að semja tillögu að banni við slíkum sprengjum, heldur sameina stjórnmálalegan vilja til að banna notkun klasasprengna.

Klasasprengjur eru sérstaklega hættulegar óbreyttum borgurum þar sem þær springa sjaldnast allar þegar þeim er varpað og geta ógnað lífi fólks löngu eftir að átökum lýkur. Þá geta þær hangið í trjám eða í þakrennum löngu eftir að þeim er varpað úr flugvél og sprungið þegar minnst varir.

Baráttuhópurinn CMC (Cluster Munition Coalition), sem er meðal þeirra sem stendur að ráðstefnunni ásamt norskum stjórnvöldum, segir að allt að 60% fórnarlamba slíkra sprengna séu börn, en sprengjurnar geta haft aðdráttarafl á börn þar sem þær eru jafnan smáar, undarlega lagaðar og í skærum litum.

Sprengjurnar hafa nýlega verið notaðar í Írak, Kósóvó, Afganistan og Líbanon auk þess sem milljarðar þeirra eru sagðir í vopnabúrum herja um allan heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert