Eyrarrósin 2007 kom í hlut Strandagaldurs og var hún afhent við á Bessastöðum í dag. Þetta er í þriðja sinn sem Eyrarrósin er veitt en markmiðið með þessari viðurkenningu er að stuðla að auknu menningarlífi á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landsluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu.
Strandagaldur hefur m.a. að geyma Galdrasafnið á Hólmavík, Kotbýli kuklarans og Þjóðtrúarstofuna á Ströndum þar sem saman hefur verið dregin vitneskja um 17. öldina, þjóðsagnir, hugmyndaheim og menningararf Strandasýslu sem tengist göldrum.
Alls voru þrjú verkefni tilnefnd til Eyrarrósarinnar úr hópi margra umsækjenda. Í umsögn dómnefndar segir m.a: Strandagaldur stendur að fjölbreyttum verkefnum og sýningum á sviði þjóðfræði og sýningarhalds og hefur frá upphafi vakið verðskuldaða athygli innanlands og utan. Sérstaða svæðisins er nýtt til að draga fram íslenska þjóðtrú og sögu og óhætt er að fullyrða að verkefnið á sér ekki hliðstæðu. Metnaður og fagþekking eru höfð að leiðarljósi. Starfsemin hefur jákvæð áhrif á byggðaþróun og uppbyggingu atvinnulífs héraðsins sem aftur styrkir stoðir þess og dregur athygli ferðamanna að því. Rík þátttaka heimafólks í starfinu er til fyrirmyndar.
Framkvæmdastjóri Strandagaldurs er Sigurður Atlason. Formaður stjórnar er Magnús Rafnsson sagnfræðingur Bakka í Bjarnarfirði, aðrir í stjórn eru Jón Jónsson þjóðfræðingur, Kirkjubóli í Steingrímsfirði, Matthías Lýðsson bóndi, Húsavík í Steingrímsfirði, Ólafur Ingimundarson húsasmíðameistari, Svanshóli í Bjarnarfirði, Magnús H. Magnússon veitingamaður, Hólmavík og Valgeir Benediktsson, bóndi Árnesi í Trékyllisvík.