Piltur var sýknaður í Héraðsdómi Vesturlands í gær af kynferðisbroti þar sem hann var fjórtán ára er atburðurinn átti sér stað. Menn verða sakhæfir við fimmtán ára aldur.
Pilturinn játaði að hafa sett getnaðarlim sinn í munn fimm ára gamallar stúlku er þau voru stödd saman í hlöðu.
Pilturinn var jafnframt ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa sumarið 2005 á dansleik utandyra í Brákarey í Borgarnesi, slegið mann hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgur á vinstra kinnbein, neðri vör og nef og los á tveimur framtönnum í efri góm.
Var pilturinn kærður fyrir kynferðisglæpinn á síðasta ári, sama ár og stúlkan greindi frá brotinu. Játaði pilturinn brotið við skýrslutöku hjá lögreglu. Þar kom fram að brotið hafi verið framið sumarið 2004 en fyrir dómi sagði hann að það hafi verið framið sumarið 2003 en ekki sumarið 2004 eins og stúlkan sagði og hann hafði staðfest við skýrslutöku. Var pilturinn 14 ára sumarið 2003 og því ekki sakhæfur.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að frásögn piltsins um að atburðurinn hafi átt sér stað sumarið 2003 þegar hann var 14 ára fari saman við skýrslu sem stúlkan gaf í Barnahúsi þar sem hún sagði að hún sjálf hefði verið 5 ára og að pilturinn hefði sagt sér skömmu fyrir atvikið að hann væri að verða 15 ára gamall. Kemur þetta heim og saman við að atburðurinn hafi orðið sumarið 2003. Því verði ekki talið sannað að pilturinn hafi unnið verkið sumarið 2004 eftir að hann náði 15 ára sakhæfisaldri en sönnunarbyrði þar að lútandi hvílir á ákæruvaldinu. Því er pilturinn sýknaður af þessum ákærulið.
Hins vegar hafi það ekki áhrif á bótaskyldu piltsins sem hefur með háttsemi sinni valdið stúlkunni miska en með því hefur hann fellt á sig fébótaábyrgð. Þykja miskabætur til stúlkunnar hæfilega ákveðnar 300.000 krónur auk vaxta.
Pilturinn var einnig sýknaður af líkamsárásarkæru þar sem brotaþoli átti upptökin að átökum hans og piltsins og með hliðsjón af ungun aldri hans þótti rétt að refsing yrði látin niður falla.