Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, segir í svari á Alþingi, að það sé ætlun hennar að stækka friðlandið í Þjórsárverum á grundvelli tillagna starfshóps, sem skipaður var til að gera tillögur um slíka stækkun.
Starfshópurinn var skipaður í nóvember en í honum sitja Árni Bragason, formaður, Egill Sigurðsson, tilnefndur af Ásahreppi, Þorgils Torfi Jónsson, tilnefndur af Rangárþingi ytra, og Gunnar Örn Marteinsson, tilnefndur af Skeiða-og Gnúpverjahreppi.
Starfshópnum er einnig ætlað að hafa samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila á svæðinu og gera tillögur um stækkun friðlandsins svo og hugsanlegar breytingar aðrar á mörkum friðlandsins og einstökum atriðum friðlýsingarinnar.