Eigendur Hótel Sögu vilja hætta að sýna ljósbláar myndir gegn gjaldi

Radisson SAS Hótel Saga.
Radisson SAS Hótel Saga. mbl.is/Golli

Hrönn Greipsdóttir, hótelstjóri Hótel Sögu, segir ljósbláar kvikmyndir sýndar gegn gjaldi í svokölluðu Pay-TV á lokuðum rásum á hótelinu en eigendur Hótel Sögu hafi lagt fyrirspurn fyrir Radisson SAS, rekstraraðila hótelsins, hvort þeir megi draga sig út úr þeirri þjónustu. Þessar kvikmyndir séu frá viðurkenndum söluaðilum og framleiddar með löglegum hætti.

Hrönn telur að nær væri að beina klámumræðu seinustu daga í aðrar áttir og vekja athygli á afstöðu stjórnmálamanna og borgarstjórnar til málsins. Borgaryfirvöld fordæmi klám en klámblöð séu þó seld í bókabúðum og bensínstöðvum í Reykjavík.

„Við sem þjónustufyrirtæki erum sett í ákaflega mikinn vanda þegar yfirvöld eru búin að lýsa yfir algjörri vanþóknun á þessu fólki og þessum hópi. Þetta er svipað og ætla að halda veislu en það sé fyrirfram ákveðið að það vilji helst enginn fá veislugestina,“ segir Hrönn. Vissulega sé það ákvörðun eigenda hvort þeir láti undan slíkum þrýstingi, að ekki sé talað um þegar barnaklám sé nefnt í tengslum við ráðstefnuna. „Þetta tal undanfarna daga hefur verið mjög meiðandi fyrir hótelið og ég hugsa náttúrulega um heildarmyndina, gestina nú og þá sem munu koma og starfsmenn hótelsins.“

Hrönn segist aðspurð gera ráð fyrir því að framleiðendurnir muni leita réttar síns, í ljósi yfirlýsingar á vefsíðunni Snowgathering.com. Það verði þá dæmt í því á Íslandi eftir íslenskum lögum og þá tekin inn í myndina sú sterka mótmælabylgja sem hrinti þessu öllu af stað. Hvað varðar reglur um það hvenær neita megi fólki um gistingu segir Hrönn að hún sé einungis bær sem hótelstjóri að vísa fólki frá með efnislegum rökum. „Til dæmis ef fólk brýtur af sér, særir eða truflar aðra gesti, er drukkið og með ólæti eða greiðir ekki reikninga sína. En þegar kemur að svona siðferðislegu áliti hlýtur það að enda á borði eigenda,“ segir Hrönn.

Hrönn segir 49 herbergi hafa verið pöntuð fyrir ráðstefnugesti á Radisson SAS Hótel Sögu og það eigi ekki að vera svo erfitt að finna þau á öðrum hótelum. Ráðstefnunni hefur verið aflýst og því mun ekki koma til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka