Stjórn Bændasamtaka Íslands, sem eiga Hótel Sögu, hefur ákveðið að vísa frá hópi fólks sem bókað hafði gistingu á Radisson SAS Hótel Sögu dagana 7.-11. mars og komið hefur síðar í ljós að tengist framleiðslu klámefnis. Ákvörðun þessi er studd af Rezidor Hotel Group sem er rekstraraðili Radisson SAS hótelkeðjunnar.
Með þessu vilja Bændasamtökin lýsa vanþóknun sinni á starfsemi þeirri sem ofangreindur hópur tengist. Hótelið hefur ekki farið varhluta af sterkum viðbrögðum almennings undanfarna daga og í fyrradag lýstu borgaryfirvöld þennan hóp óvelkominn í Reykjavík, að því er segir í tilkynningu.