Grunnskólanemendum fækkaði milli ára en kennurum fjölgaði

Kennurum fjölgaði á síðasta ári
Kennurum fjölgaði á síðasta ári mbl.is/Júlíus

Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 43.875 haustið 2006, auk þess sem 103 börn stunduðu nám í 5 ára bekk í 7 skólum. Grunnskólanemendum hefur fækkað um 461 frá síðastliðnu skólaári eða um 1%. Starfsmenn við kennslu voru 4961 við upphaf skólaársins og hafði fjölgað um 120 frá hausti 2005 eða um 2,5%. Þessir starfsmenn eru í 4972 stöðugildum og hefur stöðugildunum fjölgað um 96 frá haustinu 2005, eða um 2%.

Hagstofan segir, að gera megi ráð fyrir að nemendum grunnskóla fækki næstu árin því þeir árgangar, sem eru að hefja grunnskólanám, séu fámennari en þeir árgangar sem ljúka munu grunnskólanámi. Flestir voru grunnskólanemendur á Íslandi haustið 2003 eða 44.809 talsins.

Skólaárið 2006-2007 eru 7 einkaskólar starfandi á grunnskólastigi með 572 nemendur. Það er fjölgun um 100 nemendur frá síðastliðnu skólaári, eða 21,2%. Þá eru ekki taldir með 83 nemendur í 5 ára bekk. Grunnskólanemendur í einkaskólum hafa ekki verið fleiri frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands árið 1997.

Grunnskólum fækkar
Alls starfa 173 grunnskólar á landinu og hefur þeim fækkað um 4 frá árinu áður. Hörðuvallaskóli í Kópavogi er nýr grunnskóli en 5 skólar hafa verið lagðir niður eða sameinaðir öðrum skólum frá síðastliðnu skólaári. Í sérskólum, sem eru 4 talsins, stunda 160 nemendur nám. Í ítalska grunnskólanum að Kárahnjúkum eru 10 nemendur, sem eru ekki inni í ofangreindum tölum.

Að meðaltali eru 18,6 nemendur í bekk, en þá eru sérskólar og sérdeildir ekki taldar með. Bekkjarstærð vex með hækkandi aldri nemenda. Að meðaltali eru fæstir nemendur í 1. bekk, eða 17 en flestir nemendur í 9. bekk, eða 20,5. Ekki eru til upplýsingar um fjölda kennara sem kenna hverjum bekk en í sumum tilvikum er stórum bekkjardeildum kennt af fleiri en einum kennara.

Þá hefur ýmis konar samkennsla árganga farið vaxandi og er ekki eingöngu stunduð í fámennum skólum á landsbyggðinni. Alls störfuðu 4961 starfsmenn við kennslu og skólastjórnun haustið 2006 og eru 9,8 nemendur á bak við hvert stöðugildi kennara.

Sérkennurum fjölgar
Hagstofan segir, að fjölgun kennara komi eingöngu fram í auknum fjölda sérkennara, sem fjölgar úr 275 í 476 en almennum grunnskólakennurum fækkar á milli ára.

Kennarar með kennsluréttindi eru 4261 og fjölgaði um 64 frá fyrra ári. Ekki hafa áður verið fleiri réttindakennarar starfandi í íslenskum grunnskólum frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1997.

Kennurum með réttindi fækkar lítið eitt hlutfallslega frá hausti 2005 en nú hafa 85,9% þeirra sem sinna kennslu kennsluréttindi á móti 86,7% haustið 2005. Hæsta hlutfall réttindakennara á landinu er í Reykjavík þar sem 93,2% kennara hafa kennsluréttindi. Lægst er hlutfall réttindakennara á Austurlandi þar sem 68,2% kennara hafa kennsluréttindi. Þar hefur einnig orðið mest fækkun réttindakennara frá hausti 2005, en þá höfðu 73,5% kennara kennsluréttindi. Á Vestfjörðum hefur orðið mest fjölgun réttindakennara en þar fjölgaði réttindakennurum úr 65,3% í 72,0%.

Brottfall úr kennslu eykst
Alls höfðu 830 starfsmenn við kennslu haustið 2005 hætt störfum haustið 2006 og er brottfallið 17,1%. Þetta er meira brottfall en mælst hefur í gagnasöfnun Hagstofu Íslands frá árinu 1997. Brottfall úr kennslu er hlutfallslega meira meðal þeirra sem ekki hafa kennsluréttindi og meðal þeirra sem eru í hlutastarfi. Haustið 2006 höfðu 611 réttindakennarar hætt eða tekið sér leyfi frá störfum, eða 14,6% þeirra réttindakennara sem störfuðu í grunnskólum haustið 2005. Ekki hefur áður mælst hærra brottfall réttindakennara. Á sama tímabili hættu 34% leiðbeinenda eða tóku sér hlé frá störfum.

Flestir kennarar á fimmtugsaldri
Fjölmennasti aldurshópur starfsfólks við kennslu er 40-44 ára og voru 16% kennara á þessu aldursbili. Hlutfallslega fleiri kennarar eru nú eldri en 55 ára en voru fyrir 5 árum og færri undir þrítugu en þá. Þannig eru nú 18,5% kennara 55 ára og eldri en voru 14,1 haustið 2001. Á sama tímabili hefur hlutfall kennara undir þrítugu lækkað úr 14,2% í 11,1%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert