Christina Ponga, skipuleggjandi ráðstefnu netklámsframleiðenda, Snowgathering 2007, segir það mikil vonbrigði að Radisson SAS hótelið í Reykjavík hafi ákveðið að synja ráðstefnugestum um gistingu og að skipuleggjendur neyðist til að hætta við að halda ráðstefnuna á Íslandi. Hún eigi ekki von á því að annað hótel vilji hýsa ráðstefnugesti.
„Ef við ætlum ekki að fremja lögbrot í landinu, af hverju ætti okkur þá að vera úthýst? Það er engin glóra í þessu,“ sagði Ponga í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins um hálftvöleytið í dag. Hún sæi ekki betur en að eigendur hótelsins hefðu verið beittir þrýstingi og látnir úthýsa ráðstefnugestum.