Ísafjarðarbær tilbúinn að bregðast við lokun starfsstöðvar Marels

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði.

Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar tekur fréttum um lokun starfsstöðvar Marels ehf. á Ísafirði mjög illa. Í samtali við bb.is sagði Halldór að því miður hafi hann haft blendnar tilfinningar um kaup Marels á Póls frá upphafi, því reynsla Vestfirðinga hafi verið döpur af eignarhaldi fyrirtækja annars staðar af landinu á fyrirtækjum á Vestfjörðum.

Halldór segir þó að fréttirnar um lokunina hafi komið sér á óvart enda hafa allar fréttir frá fyrirtækinu undanfarin misseri verið mjög jákvæðar og ekki litið út fyrir annað en að allt hafi gengið vel.

„Hér er öflugt starfsfólk með gríðarlega þekkingu og því kemur á óvart að Marel vilji ekki nýta sér þetta“, bætir Halldór við. Honum finnst Marel ekki gera sér grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem fyrirtækið hefur og tók á sig með að kaupa Póls á sínum tíma, ekki aðeins gagnvart starfsfólki heldur einnig gagnvart byggðarlaginu.

Halldór vill þó horfa á tækifærin sem eru til handa starfsfólki Marels á Ísafirði en forsvarsmenn fyrirtækisins lýstu því yfir í samtali við bæjarstjórann að starfsfólk gæti keypt starfsstöðina og selt þaðan einhver framleiðslutæki sem Marel myndi kaupa. Annar möguleiki í stöðunni segir Halldór vera að athuga hvort 3X-Stál sjái sér fært að stækka fyrirtæki sitt og taka við einhverju af starfsfólki Marels, enda 3X-Stál afar öflugt og gott fyrirtæki.

„Ísafjarðarbær er tilbúinn til að vinna með [starfsfólkinu] að uppbyggingu nýrra tækifæra og við höfum tíma til 1. september til að vinna í þessum málum.“ Halldór leggur áherslu að við ástandinu verði að bregðast og sjá tækifærin í stöðunni, þetta sé glíma sem verði að vinna. „Það er það mikil þekking hér hjá starfsfólki Marel og 3X-Stál þannig að ef við stillum saman strengi gætum við byggt upp stórveldi á þessu sviði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert