Klámframleiðendur ætla að leita lögfræðiaðstoðar vegna fjárhagslegs tjóns

Framleiðendur klámefnis á síðunni FreeOnes.com, sem ætluðu að halda ráðstefnuna Snowgathering 2007 hér á landi, segjast hryggir yfir því að aflýsa hafi þurft ráðstefnunni þar sem eigendur Radisson SAS, Hótel sögu, hafi ekki þolað þrýsting frá fjölmiðlum og stjórnmálamönnum. Samtökin ætli að leita sér lögfræðiaðstoðar vegna þess fjárhagslega tjóns sem af þessu hlýst fyrir framleiðendurna og þvert á íslensk lög, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá þeim.

FreeOnes.com segja ákveðna hópa hér á landi á þeirri skoðun að fólk megi ekki velja sér starf sem þeim sé ekki þóknanlegt. Þau segjast ekki skilja hvernig þessi ákvörðun hafi verið tekin og styðji hana ekki. Þau hafi orðið við öllum óskum hótelsins. Þá segjast samtökin hafa fengið staðfestingu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrir því að ráðstefnugestir fengju sömu meðferð og aðrir ferðamenn.

„Svo virðist sem það að vera tengdur klámi sé orðið að nýjum lögum á Íslandi sem kveða á um að slík manneskja megi ekki vera í landinu. Landi sem hefur meiri áhyggjur af því, að konur fari úr fötunum af fúsum og frjálsum vilja án þrýstings eða hótana, en útrýmingu dýra eins og hvala!“ segir í yfirlýsingunni á síðunni www.snowgathering.com.

Þó hafi margir Íslendingar lýst yfir stuðningi við FreeOnes.com og þeim séu framleiðendurnir þakklátir.

„Ég myndi skilja að fólk æsti sig ef við ætluðum að fara til Íslands til að búa til klám og brjóta lög landsins. En að fordæma okkur fyrir störf okkar, sem eru lögleg í okkar landi, ég skil bara ekki hvert vandamálið er. Það er ekkert vit í þessu, öll þessi umræða er glórulaus,“ sagði Christina Ponga, skipuleggjandi Snowgathering 2007, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert