Klámframleiðendur óvelkomnir

Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is
Fulltrúar allra stjórnmálaflokka, sem sátu morgunverðarfund sem kvennahreyfingin á Íslandi efndi til í gær undir yfirskriftinni: „Stefnumót við stjórnmálaflokka – kynbundið ofbeldi", ætla að beita sér fyrir því í sínum þingflokkum að samþykkt verði ályktun gegn fyrirhugaðri klámráðstefnu hér á landi, í sama anda og borgarstjórn gerði á fundi sínum í fyrradag.

Í ályktun borgarstjórnar kom m.a. fram að klámráðstefnan væri haldin í óþökk borgaryfirvalda. Fulltrúarnir voru Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, Valdimar Leó Friðriksson, þingmaður Frjálslynda flokksins, Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Klámráðstefnan var harðlega gagnrýnd á fundinum. „Að sjálfsögðu eigum við að fordæma þessa ráðstefnu," sagði Ágúst Ólafur. "Klám er ólöglegt hér á landi. Ríkisstjórnin taldi sig hafa úrræði til bregðast við heimsókn Vítisengla og Falun Gong og hún hlýtur núna að hafa úrræði gagnvart klámframleiðendum."

Í máli Guðjóns Ólafs kom fram að það væri ákveðinn tvískinnungur að mótmæla klámráðstefnunni á þeim forsendum að klám væri ólöglegt en amast á sama tíma ekkert við öllum þeim klámbúllum og -búðum hérlendis sem seldu og dreifðu klámi. Arnbjörg tók undir þetta sjónarmið.

Steingrímur benti á að á þingi Norðurlandaráðs sl. haust hefði verið samþykkt að eiga ekki viðskipti við hótel eða ferðaþjónustuaðila sem hefðu klám á boðstólum. Tók hann fram að hann vissi ekki betur en Hótel Saga væri með klámrás í hótelsjónvörpum sínum og undraði hann hvort hótelið vildi með þessu móti útiloka sig frá viðskiptum við Norðurlandaráð.

Ekki réttarríki

Á fundinum vakti Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, m.a. athygli á því að á hverju ári leituðu a.m.k. 300 manns sér hjálpar hjá Stígamótum. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðherra hefðu alls 370 nauðganir verið kærðar til lögreglu á árabilinu 1995–2004. Af þeim leiddu 17% til ákæru og var 61 einstaklingur kærður. Af þeim voru 37 dæmdir í héraði, 25 málum var áfrýjað og felldir voru 19 hæstaréttardómar. „Það er ekki í boði að telja sig búa í réttarríki á meðan þessar tölur eru veruleikinn," sagði Guðrún. Í Evrópu hefði kærum vegna kynbundins ofbeldis fjölgað en fjöldi dóma stæði í stað.

Nánaer er fjallað um ráðstefnuna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert