Læknafélagið: Reynt að skipta þjóðinni upp í hreinan kynstofn og hina

Læknafélag Íslands segir, að í frumvarpi um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, sem nú er til meðferðar hjá Alþingi, sé gerð tilraun til að skipta þjóðinni í „hinn hreina kynstofn" annars vegar og „hina" hins vegar.

Í umsögn um frumvarpið segist Læknafélagið leggjast gegn því, að heimilt verði að leggja fram staðfestingu á því að vera ekki haldinn tilteknum sjúkdómi.

„Með slíkri heimild er orðið stutt í að tryggingarfélögin geti farið að gera greinarmun á þeim sem leggja slíka staðfestingu fram og þeirra sem það gera ekki. Með því að heimila að lögð sé fram staðfesting þess að vera ekki haldinn tilteknum sjúkdómi verða þeir sem það gera ekki óneitanlega komnir í hærri áhættuflokk sem hópur, þar sem fyrir liggur að einhver hluti þeirra getur verið haldinn tilteknum sjúkdómum. Hverjir það eru nákvæmlega liggur hins vegar ekki fyrir og því spurning hvort með óbeinum hætti sé verið að þvinga væntanlega tryggingartaka til að leggja fram niðurstöður erfðarannsókna um heilsufar. Þá verður til annars vegar hinn „hreini” stofn og hins vegar „hinir”. Slík niðurstaða gæti haft óeðlileg áhrif á iðgjaldagreiðslur og möguleika einstaklinga, sem ekki eru haldnir sjúkdómum, en vilja einhverra hluta vegna ekki undirgangast sérstaka erfðarannsókn, til að kaupa sér tryggingar," segir í umsögninni.

Læknafélagið segir frumvarpið snerti grundvallarmannréttindi og fyrirhugaðar breytingar á lögunum falli að kröfum vátryggingarfélaganna um að fá að safna viðkvæmum heilsufarsupplýsingum frá tryggingartaka um þriðja aðila án samþykkis hans eða jafnvel vitneskju.

Segir félagið að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði ekki annað séð en efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis gangi erinda tryggingafélaganna og horfi til óskilgreindra viðskiptahagsmuna á kostnað persónuverndarsjónarmiða einstaklingsins.

Umsögn Læknafélagsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert