Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, hóf þinghald í gær á því að leggja fram bókun vegna falsaðs tölvubréfs sem verjandi Tryggva Jónssonar, Jakob R. Möller, sýndi dóminum á mánudag. Með bókuninni lagði hann fram útprentun af ófölsuðu tölvubréfi til samanburðar.
Einnig sagðist saksóknari vera með í skoðun að leggja fram rafrænt tölvubréf til frekari samanburðar og óskaði eftir því að upplýst yrði hvaða aðstoðarmaður verjenda hefði búið bréfið til og hvaða tölvuþekkingu hann byggi yfir. Sagði saksóknari mikilvægt að þau skjöl sem lögð væru fram í málinu væru rétt og því vildi hann sýna fram á muninn á fölsuðu og ófölsuðu tölvubréfi, svo dómurinn yrði ekki afvegaleiddur, væri því mikilvægt að bókunin næði fram að ganga.
Jakob svaraði þá til að skjalið sem sýnt var á mánudag hefði ekki verið lagt fram og hann myndi ekki upplýsa um tilurð þess. "Ef það gefur ákæruvaldinu tilefni til þess að rannsaka tölvupóst í málinu, þá er það betra seint en aldrei."
Jakob gagnrýndi í kjölfarið spurningaflóð saksóknara og sagði um 1.500 spurningar hafa dunið á Jóni Ásgeiri meðan skýrslutaka af honum stóð yfir, hann hefði svo ekki tölu á hversu margar þær voru yfir Tryggva.
Sigurður Tómas lét sér athugasemd Jakobs í léttu rúmi liggja og sagðist verða að álykta sem svo að hið falsaða tölvubréf væri aðeins ritvinnsluskjal og hefði ekkert með hefðbundin tölvubréf að gera, þ.e. þau sem finnast í tölvum.