Ók glæfralega undir áhrifum kannabisefna

Lögreglan í Borgarnesi þurfti að hafa afskipti af ökumanni sem ók heldur glæfralega á Vesturlandsveginum um kl. 20 í kvöld. Ökumaðurinn, sem var á leiðinni til Reykjavíkur, var undir áhrifum kannabisefna. Að sögn lögreglu ók ökumaðurinn, sem var kona, m.a. á öfugum vegarhelmingi upp blindhæð, en lögregla tók fram að ekki hafi verið um ofsaakstur að ræða.

Lögregla segir ökumanninn hafa skapað stórhættu í umferðinni en sem betur fari hafi engin slys orðið. Það tók ökumanninn nokkra stund að átta sig á því þegar lögreglan gaf honum merki um að stöðva. Þegar hann stöðvaði loks flutti lögreglan ökumanninn og farþega, sem er karlmaður, á lögreglustöðina. Bæði sýndu þau mótþróa og þurfti lögreglan að endingu að setja manninn inn í fangaklefann, en hann var undir áhrifum áfengis.

Fólkið var að koma frá Akureyri og segir lögregla skemmdir séu á bílnum og verið sé að athuga hvort ökumaðurinn hafi ollið einhverju tjóni í bænum eða annarsstaðar á leið sinni.

Skömmu áður stöðvaði lögreglan atvinnubílstjóra sem mældist aka á 99 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km á Sandvíkurkaflanum í Borgarnesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert