Starfsstöð Marels á Ísafirði verður lokað í haust

Starfsstöð Marels á Ísafirði.
Starfsstöð Marels á Ísafirði. BB.is

Ákveðið hefur verið að loka starfsstöð Marel hf. á Ísafirði frá 1. september nk. Marel mun ræða við starfsfólkið þar um mögulegan áhuga þess á starfi í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Garðabæ en rúmlega 20 manns vinna hjá fyrirtækinu.

Aðgerðin er liður í endurskipulagningu á heildarstarfsemi fyrirtækisins um allan heim. Flutningurinn frá Ísafirði til Garðabæjar er liður í endurskipulagningunni og ákvörðunin er alfarið byggð á rekstrarlegum forsendum. Á Ísafirði hefur undanfarin ár verið lögð áhersla á framleiðslu og sölu hraðpökkunartækja, sem þróuð eru þar. Um langt árabil hafa auk þess verið framleiddar skipavogir vestra.

Framleiðslueiningin á Ísafirði var upphaflega fyrirtækið Póls, sem Marel keypti árið 2004, en það hafði þá glímt við taprekstur um skeið. Í kjölfar kaupa Marel á fyrirtækjunum AEW Delford Systems í Bretlandi og Scanvægt International í Danmörku á síðasta ári hefur verið unnið að samþættingu rekstrareininga fyrirtækisins um allan heim. Það er afar mikilvægt fyrir alþjóðlegt fyrirtæki eins og Marel að fækka og stækka sölu-, þróunar- og framleiðslueiningar sínar á rekstrarlegum forsendum. Vegna þessa er einingin á Ísafirði orðin of lítil og óhagstæð.

„Stjórnendum Marel þykir leitt að þurfa að hætta rekstri vestra, en rekstrarlegar ástæður krefjast aukinnar samþættingar í alþjóðlegu starfsumhverfi fyrirtækisins, segir í frétt frá fyrirtækinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert