Tal um eignarnám við Þjórsá fráleitt

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, sagðist í umræðu á Alþingi í dag ekki fá séð hvaða samfélagsleg nauðsyn eða almannahagsmunir liggi til grundvallar því að jarðir við Þjórsá verði teknar eignarnámi vegna fyrirhugaðra virkjana þar. Sagði Jónína að ólíklegt er að sveitarstjórnir myndu ganga gegn vilja bænda, sem eiga eignarlönd við Þjórsá og því væri allt eignarnámstal fráleitt og aðeins ætlað að skaða umræðuna.

Verið er að ræða um virkjanir í neðri hluta Þjórsár utan dagskrár á Alþingi að ósk Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, en haann spurði ráðherra m.a. hvort það væri ekki óeðlileg valdbending að taka eignarlönd og heimili fólks eignarnámi til að greiða fyrir stóriðju og varla verði séð, að almannahagsmunir krefjist þess að beita slíkri hörku gagnvart ábúendum við Þjórsá.

Jónína sagði að almennt ættu menn að fara sér hægt við virkjanir og ná yrði sátt um hvernig arðinum verði skipt milli þjóðarinnar. Einnig eigi að huga sérstaklega vel að annarri landnýtingu og náttúruvernd og friðlýsing væri landnýting, sem gæti skilað arði í þjóðarbúið.

Björgvin sagði ljóst af svörum ráðherra, að gömlu rökin um eignarnám vegna stóriðju eigi ekki við lengur. Því yrði Landsvirkjun að ná samningum við landeigendur ætli fyrirtækið að fara í þessar virkjanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert