Áttu stuttan fund um nafnlaust bréf

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og Jakob R. Möller, …
Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og Jakob R. Möller, lögmaður Tryggva Jónssonar, bera saman bækur sínar. mbl.is/ÞÖK

Saksóknari og verjendur í Baugsmálinu áttu ásamt dómara fund um nafnlaust bréf, sem borist hefur til ýmissa málsaðila þar sem ýmsar ásakanir eru m.a. bornar á dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstarétti. Að sögn Gests Jónssonar, lögmanns Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, var um óformlegan fund að ræða. Hann segir menn hafa verið sammála um að það hafi verið afar óheppilegt að bréfið umrædda hafi farið í umferð.

„Mér finnst mjög alvarlegt að svona bréf fari í umferð,“ sagði Gestur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Hann segir það alvarlegt, sem haldið er fram í bréfinu, að ekki sé réttarríki á Íslandi „heldur leggi dómstólar til grundvallar í niðurstöðum sínum einhver sjónarmið sem byggjast ýmist á óvild eða vild gegn einstaklingum eða fyrirtækjum.“

Gestur segir greinilegt að bréfritarinn, sem ekki er vitað hver er, hafi þá skoðun að það sé nauðsynlegt að Jón Ásgeir verði sakfelldur. „Þetta er framsetning sem mér þykir allt að því óhugguleg,“ segir Gestur.

Aðspurður segir Gestur að bréfið hafi engin áhrif á framgang dómsmálsins sem nú sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. „Þetta er nú nafnlaust bréf. Þó það sé alvarlegt sem í því stendur þá hefur það ekki þau áhrif að það stoppi málið,“ sagði Gestur Jónsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka