Slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu æfðu í dag björgun úr vök á ísnum á Rauðavatni en Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á sérstakan búnað til slíkra björgunarstarfa. Höskuldur Einarsson, deildarstjóri, segir að sem betur fer þurfi afar sjaldan að nota þennan búnað en þeim mun mikilvægara sé að æfa notkun hans þegar tækifæri gefst.
Höskuldur sagði, að ísinn á Rauðavatni hefði raunar verið heldur of þykkur í dag og því hefði þurft að brjóta vök. Slökkviliðsmenn í sérstökum flotbúningum fóru síðan niður í vökina og einnig notuðu þeir sleða, sem rennt er í vökina. Sá sem verið var að bjarga var settur á sleðann og hann síðan dreginn á þurrt.
Höskuldur sagði, að slökkviliðið hefði átt þennan búnað í 3-4 ár. Á þeim tíma hefði afar sjaldan þurft að grípa til hans en þó hefði það gerst í Kópavogi þar sem ís brast undan börnum að leik. Hins vegar væri mikilvægt að slökkviliðsmenn væru viðbúnir þessum aðstæðum þar sem fólk væri mikið á ferli við vötn á höfuðborgarsvæðinu.