Langt er frá því að heilinn missi aðlögunarhæfni sína eða aðra hæfni til að styrkjast og þroskast með aldrinum. Þvert á móti bendir allt til þess að mikilvægir hlutar heilabúsins geti haldið áfram að bæta við sig, svo lengi sem þeir séu þjálfaðir reglulega. Kom þetta meðal annars fram í erindi dr. Elkhonon Goldberg, prófessors í taugafræði við New York University School of Medicine, á ráðstefnu um öldrun og málefni aldraðra, sem nú stendur yfir í Háskólanum í Reykjavík. Goldberg segir heilann þurfa að æfa eins og aðra líkamshluta. Einfaldir hlutir eins og að halda boltum á lofti geti haft mælanleg áhrif á skömmum tíma. Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.