Steingrímur: Bullandi stemning fyrir því að fella ríkisstjórnina

Bekkurinn var þéttsetinn á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í kvöld.
Bekkurinn var þéttsetinn á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í kvöld. mbl.is/ÞÖK

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði í setningarræðu á landsfundi flokksins í dag, að það væri bullandi stemning fyrir því í þjóðfélaginu að fella ríkisstjórnina. Þjóðin vildi breytingar enda væri þörf fyrir grundvallar stefnubreytingu.

Steingrímur sagði, að það væri hið stóra sameiginlega verkefni stjórnarandstöðunnar að fella ríkisstjórnina og takist það beri stjórnarandstöðunni að líta á það sem áskorun um að mynda saman ríkisstjórn og taka völdin í landinu. Ef ríkisstjórninni verði ekki komið frá verði engin sú stefnubreyting á sviði efnahagsmála, velferðarmála, umhverfismála, utanríkismála, atvinnu- og byggðamála, jafnréttismála, kvenfrelsismála og stöðu kvenna, sem þjóðin þurfi svo sárlega á að halda.

„En þessu ráðum við auðvitað ekki ein, góðir félagar, og við munum ekki ganga skuldbundnari til kosninga að þessu leyti heldur en samstarfsflokkar okkar í stjórnarandstöðunni eru tilbúnir til að gera. Svo einfalt er það. Eins og útlitið sem sagt er um þessar mundir þá eru bullandi möguleikar á hvoru tveggja, að fella ríkisstjórnina og að mynda nýja og betri ríkisstjórn með okkar aðild," sagði Steingrímur.

Hann sagði m.a. að eitt af verkum nýrrar ríkisstjórnar ætti að vera að breyta útfærslum í ríkisfjármálum og skattamálum. Byrjað yrði að vinda ofan af þeirri tilfærslu skattbyrðarinnar, sem verið hafi í gangi undanfarið frá hátekjufólki, efnamönnum og gróðafyrirtækjum yfir á almennt launafólk og þar fyrst og fremst á lægri laun. Sagðist Steingrímur ekki í raun vera að boða skattahækkanir í heild heldur tilfærslur, enda væri ekki þörf á slíku miðað við afkomu ríkissjóðs nú.

Í ræðunni fór Steingrímur yfir það hver að hans mati ættu að verða fyrstu verkefni nýrrar ríkisstjórnar ef sú von gengi eftir, að umskipti verði í stjórnmálum landsins eftir næstu kosningar. Lýsti Steingrímur verkefnunum í um tveimur tugum liða, þar á meðal eftirfarandi:

  • Bjóða heildarsamtökum aldraðra og öryrkja til samráðsfunda um hvernig umbótum í þeirra málum verði hrint í framkvæmd. Viðbótarfjármunir af stærðargráðunni 7 milljarðar króna á ári muni renna til þessa hóps.
  • Yfirlýsing verði gefin um stóriðjustopp og orkufyrirtæki og iðnfyrirtæki, sem hafa verið að undirbúa framkvæmdir, verði kölluð tafarlaust til viðræðna um breytta stöðu.
  • Hrinda í framkvæmd víðtækri friðlýsingaráætlun þar sem vatnsföll og háhitasvæði verði friðlýst hvert á fætur öðru og grunnur lagður að mótun sjálfbærrar orku- og atvinnustefnu.
  • Grunnur verði lagður að nýjum fjárlögum og breyttum útfærslum í ríkisfjármálum og skattamálum. Skattleysismörk verði hækkuð og útfærslu fjármagnstekjuskatt sverði breytt með því að gera þeim, sem hafa tugi eða hundruð milljóna í fjármagnstekjur, skylt að reikna sér hæfileg laun eða endurgjald.
  • Sveitarfélög verði kölluð til viðræðna með það að markmiði að bæta afkomu þeirra almenn og til að gera þeim kleift að ráðast í löngu tímabær umbótaverkefni í samstarfi við ríkið.
  • Strandsiglingar verði boðnar út til að ná niður flutningskostnaði, í þágu umhverfisverndar og umferðaröryggis á vegum.
  • Því verði lýst yfir tafarlaust, að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hafi verið mistök og Ísland fjarlægt af lista yfir þjóðir sem studdu innrásina.
  • Aðilum vinnumarkaðar verði boðið til viðræðna við stjórnvöld um breyttar áherslur í launamálum, með það að markmiði að hækka lægstu laun umtalsvert í tengslum við skattkerfisbreytingar og segja kynbundnum launamun stríð á hendur.
  • Skipulag stjórnarráðsins verði endurskoðað þar sem umhverfisráðuneytið yrði styrkt.
  • Sett af stað óháð og tæmandi rannsókn á málum allra þeirra barna og unglinga, sem sættu harðræði á stofnunum og heimilum.
  • Færa þjóðinni aftur Ríkisútvarpið.
  • Tryggja fullt jafnræði karla og kvenna í ríkisstjórn og ýta úr vör metnaðarfullri áætlun um að jafna hlut kynjanna.
  • Bjóða stjórnarandstöðunni aðild að mikilvægum nefndum og ráðum og tryggja henni eðlileg áhrif í þinginu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert