"VIÐ erum mjög ánægðar með þessa niðurstöðu," segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, um ákvörðun skipuleggjenda ráðstefnu netklámsframleiðenda, Snowgathering 2007, þess efnis að hætta við að halda ráðstefnuna á Íslandi eftir að Radisson SAS hótelið í Reykjavík tilkynnti í gær að ákveðið hefði verið að synja ráðstefnugestum um gistingu.
Fyrir viku sendu Stígamót ríkisstjórn, þingmönnum, borgarstjórn og lögreglustjórum bréf þar sem hvatt var til að skoða hvað hér væri á ferðinni og fyrir hvað þátttakendur í væntanlegri ráðstefnu stæðu. Guðrún segir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hafi strax brugðist við af mikilli röggsemi og lýst því yfir að Reykjavík vildi ekki hafa svona samkomur innan borgarmarkanna. Aðrir hafi einnig brugðist fljótt og vel við og svo virðist sem flestir, sem hafi komið að málinu, hafi verið sammála um að ráðstefnan hérlendis hafi verið óæskileg og hópurinn verið óvelkominn til Íslands.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.