Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, átti í dag fundi með ráðamönnum í Úganda. Á fundi með utanríkisráðherra Úganda, Sam Kutesa, í morgun var ástand mála í norðurhluta landsins rætt og vonir stjórnvalda um að flóttamenn geti sem fyrst snúið aftur til heimkynna sinna.
Utanríkisráðherra Úganda þakkaði Íslendingum fyrir hversu vel hefur tekist til með þróunarsamvinnu landanna og minntist sérstaklega á hversu gagnlegt skólamáltíðarverkefni Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna væri. Hann þekkti af eigin raun, sem fyrrverandi menntamálaráðherra, hversu erfitt væri að fá börn í skólana. Skólamáltíðir stuðli að því að fjölga börnum í skólum landsins, ekki síst stúlkum, sem annars nytu ekki menntunar, segir í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Ráðherra greindi starfsbróður sínum frá ferð hennar til Pader héraðs deginum áður og ræddu þau nokkuð þau vandamál sem fólk þessa hrjáða svæðis eiga við að etja. Utanríkisráðherra spurði starfsbróður sinn sérstaklega um ástand mála á Karamoja svæðinu, en frumbyggjar þar eiga nú í erjum hver við annan, nágranna sína og stjórnarherinn.
Í morgun átti ráðherra fund með fjölda kvenna sem eru í Samtökum frumkvöðlakvenna í Úganda, en sumar þeirra höfðu fengið þjálfun í frumkvöðlafræðum við Háskólann í Reykjavík á síðasta ári. ÞSSÍ og fjárfestinagastofa Úganda hafi nýhafið þriggja ára samstarfsverkefni sem heitir Átak í frumkvöðlafræðslu og eru þessi samtök kvenna meðal þátttakenda í verkefninu. Konurnar reka allar fyrirtæki af ýmsu tagi og var þeim tíðrætt um hversu hamlandi takmarkaður aðgangur þeirra að lánsfé væri. Undir þetta tók félagsmálaráðherra síðar um daginn og lagði til að sett væri á fót verkefni í samvinnu við Íslendinga sem styrkti konur til að stofna fyrirtæki.
Ráðherra átti einnig fund með ráðherra jafnréttis-, atvinnu- og félagsmála, Syda N.M. Bbumba. Þær starfssystur ræddu fyrst og fremst málefni kvenna í Úganda og á Íslandi og, eins og áður sagði, stöðu kvenna í atvinnurekstri. Félagsmálaráðherrann lagði mikla áherslu á hversu vel hefði tekist til með þau fullorðinsfræðsluverkefni sem íslensk stjórnvöld, ÞSSÍ, styrkja á Kalangala eyjum og víðar.
Utanríkisráðherra fundaði með Rosette Nabuuma, framkvæmdastjóra Kertabarna, sem Erla Halldórsdóttir, setti á fót árið 2001. Stofnunin veitir stúlkubörnum skjól, sem annars væru á götunni, og kennir þeim ýmislegt handverk, m.a. kertagerð. Ágóðinn af sölu kertanna rennur til stofnunarinnar, sem einnig er styrkt af velgjörðarmönnum á Íslandi og ÞSSÍ.
Í lok dags átti utanríkisráðherra fund með forseta Úganda, Museveni. Ræddu þau sögu og menningu og þjóðanna. Forsetinn þakkaði sérstaklega þá aðstoð sem íslensk stjórnvöld veita íbúum Kalangala eyjanna. Utanríkisráðherra greindi forseta frá áhrifaríkri heimsókn hennar til Pader héraðs. Utanríkisráðherra sagði að um margt væru aðstæður í Úganda ekki ósvipaðar þeim sem voru á Íslandi fyrr á öldum. Mætti þar nefna þá skyldu barna að gæta búsmalans.
Forseti Úganda sýndi nýtingu jarðvarma á Íslandi mikinn áhuga og greindi utanríkisráðherra honum frá gagnsemi jarðvarmanýtingar á Íslandi og þeim athugunum sem ÞSSÍ hefur gert í samstarfi stjórnvöld í vesturhluta Úganda, sem lofa góðu. Í því samhengi ræddi ráðherra Háskóla sameinuðu þjóðanna á Íslandi í jarðvarma og fiskveiðum, sem útskrifað hafa fjölda nemenda frá Úganda, og þótti forseta mikið til koma.
Heimsókn utanríkisráðherra til Úganda lýkur á morgun með heimsókn hennar til Kalangala eyjanna, þar sem íslensk stjórnvöld styrkja byggðaþróunarverkefni, auk verkefna á sviði útgerðar og fullorðinsfræðslu.