Loðnuveiði hefur gengið vel það sem af er vikunnar og búið að veiða tæpan helming kvótans, 140.000 tonn, samkvæmt nýjustu tölum Fiskistofu. Kvótinn í ár var 300.000 tonn. Verð á loðnuafurðum, það er mjöl, lýsi, frystri loðnu og hrognum, er í sögulegu hámarki um þessar mundir.
Loðnuskipin hafa verið að veiðum út af Stafnesi og norðvestur af Garðsskaga en loðnan er óvenjusnemma á ferð við Reykjanes. Loðnunni hefur undanfarna sólarhringa verið landað í Grindavík, Helguvík, á Akranesi og í Vestmannaeyjum og hrogna unnin úr henni þar. Hrognin eru unnin úr loðnunni þegar hún er komin á ákveðið þroskastig, hrognafylling um 22% í hrygnunni. Þá er loðnan og hrognin hæf fyrir Japansmarkað þar sem hæst verð fæst fyrir hana.
Í Japan þykja hrognin herramannsmatur og telja Japanir þau mikinn frygðarauka og borða þau hrá. Loðnan er líka borðuð steikt, reykt og þurrkuð.