Eldur kom upp í einbýlishúsi að Staðarvör 10 í Grindavík skömmu eftir hádegi í dag. Eldurinn kom upp í eldhúsi að því er virðist og læsti eldurinn sig í loftklæðningu en þó kviknaði ekki í þakinu. Svo vildi til að á sama tíma stóð yfir námskeið fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn hjá slökkviliðinu í Grindavík og voru þar staddir slökkviliðsmenn frá Selfossi og Grindavík.
Því skorti ekki mannskap í útkallið þar sem allir voru staddir í slökkvistöðinni þegar kallið barst. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og er það nú í höndum rannsóknarlögreglu að komast að því hver eldsupptök voru.