Samfylkingin vill taka upp viðræður um að stytta vinnutíma í áföngum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir , formaður Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir , formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Brynjar Gauti

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði á ársþingi kvennahreyfingar flokksins í dag, að Samfylkingin muni að loknum kosningum beita sér fyrir viðræðum milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um að stytta hinn virka vinnutíma í áföngum og auðvelda þannig vinnandi fólki að samræma atvinnuþátttöku og fjölskylduábyrgð.

„Vinnutíminn er of langur og börnin okkar líða fyrir það. Mæður sem eru plagaðar af þreytu, streitu og samviskubiti eru ekki það sem börnin okkar þurfa. Í samanburði við önnur OECD-ríki vinna Íslendingar þriðja lengsta vinnudaginn en þegar kemur að framleiðni á vinnustund stöndum við öðrum langt að baki og erum í 19. sæti. Margt bendir því til að vinnuálagið komi niður á framleiðninni," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði, að jafnréttismál væru ekki sértækt viðfangsefni sem einvörðungu eigi að vera á ábyrgð kvenna heldur mál samfélagsins í heild. Jöfnuður og jafnrétti skapi hagsæld og auki lífsgæði allra. Í ójafnréttinu felist sóun á mannauði og það sé þess vegna hagur karla að jafna hlut kynjanna og því eðlilegt og nauðsynlegt að þeir taki þátt í umræðunni og þeim breytingum, sem gera þurfi.

Ingibjörg Sólrún taldi síðan upp það sem Samfylkingin ætlaði að beita sér fyrir að afloknum kosningum til að stuðla að auknu jafnrétti kynja. Þar á meðal ætlaði flokkurinn að samþætta jafnréttissjónarmið allri stefnumótun stjórnvalda og forsenda þess að það verði að veruleika sé, að skýr pólitískur vilji sé til framkvæmda í æðstu stjórn ríkisins, í forsætisráðuneytinu þar sem ábyrgðin verði að vera. Sagði hún að það hafi ráðið úrslitum í Ráðhúsinu þegar hún var borgarstjóri, að jafnréttisráðgjafi borgarinnar heyrði beint undir borgarstjóra.

Þá ætlaði flokkurinn að sjá til þess að það sé til staðar fjármagn og fólk með þekkingu til að sinna málaflokknum. Sett yrðu skýr mælanleg markmið um þann árangur sem menn vildu sjá. Þá ætlaði flokkurinn að endurskoða refsilöggjöfina að því er lýtur að kynbundnu ofbeldi s.s. kynferðislegu ofbeldi, vændi og heimilisofbeldi í þeim tilgangi að veita brotaþola viðunandi vernd. Loks lýsti Samfylkingin yfir skýrum pólitískum vilja til að vinna að fullu jafnrétti milli karla og kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka