Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs heldur áfram í dag en þá verða m.a. kynntar nánar áherslur flokksins fyrir alþingiskosningarnar í maí. Í gær voru afgreiddar lagabreytingar og m.a. stofnað sérstakt sveitastjórnarráð sem í sitja kjörnir fulltrúar flokksins í sveitastjórnum.
Þá var einnig samþykkt breyting á lögum þannig að við val í trúnaðarstörf innan flokksins skuli gætt jöfnuðar milli kynja, þar með talið við val á framboðslista til kosninga á Alþingi og í sveitarstjórnir.
Þá var stjórn flokksins kjörin en úrslit í stjórnarkjörinu voru birt í morgun. Aðalmenn eru Svandís Svavarsdóttir, Hlynur Hallsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Gestur Svavarsson. Varamenn í stjórn eru Ólafía Jakobsdóttir, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Auður Lilja Erlingsdóttir og Guðmundur Magnússon.