„Ég ákvað þegar ég fermdist að fara í guðfræðina og hef aldrei vikið frá því af neinni alvöru. Ég velti því fyrir mér um hríð að fara í sálfræði en síðan togaði guðfræðin alltaf í mig," segir Ólafur Jóhann Borgþórsson. Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, vígir í dag Ólaf Jóhann til prests við Seljakirkju en vígslan fer fram við athöfn í Dómkirkjunni. Ólafur Jóhann verður þar með yngsti starfandi prestur landsins, en hann er 25 ára gamall.
Ólafur Jóhann er enginn nýgræðingur innan kirkjunnar þrátt fyrir ungan aldur. Þar hefur hann lengi sinnt barna- og æskulýðsstarfi. „Ég vann með náminu í barna- og æskulýðsstarfi í Selja- og Árbæjarkirkju," segir Ólafur Jóhann. Þá hefur hann unnið með börnum í Landakirkju í Vestmannaeyjum, en Ólafur Jóhann er upprunninn í Eyjum.
Upp á síðkastið hefur Ólafur Jóhann þó starfað í Seljakirkju og verið ánægður með veruna þar. Eftir vígsluna í dag verður hann einn þriggja presta sem þjóna í kirkjunni.
Nánar er rætt við Ólaf Jóhann í Morgunblaðinu í dag.