Baugsmálið: Hreinn Loftsson yfirheyrður í Héraðsdómi Reykjavíkur

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs Group, mætti til skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Í síðustu viku lauk skýrslutöku yfir sakborningum í málinu, en frá og með deginum í dag hefjast vitnaleiðslur fyrir dómi, en tæplega 100 vitni hafa verið kölluð til leiks í Baugsmálinu. Hann greindi m.a. frá því að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði haft uppi alvarlegar ásakanir á hendur Baugi á fundi þeirra í London árið 2002.

Settur saksóknari í málinu, Sigurður Tómas Magnússon, spurði Hrein út í tengsl hans við Baug og hvernig starfi hans sem stjórnarformanns væri háttað. Þá spurði Sigurður Tómas Hrein út í ýmsar lánveitingar félagsins á árunum 1998 til 2002. Hreinn sagðist ekki þekkja öll mál nákvæmlega, hann sagðist t.a.m. ekki þekkja til þess að einstakir starfsmenn hefðu fengið lán.

Það fór aðeins að hitna í dómssalnum þegar Hreinn var spurður út í fund sinn með Davíð Oddssyni, fyrrverandi forsætisráðherra í London í janúar árið 2002. Hreinn minntist á að fyrirtækið hefði sætt mikilli gagnrýni, m.a. í fjölmiðlum og meðal ráðamanna þjóðarinnar. Hann sagði að því hefði m.a. verið haldið fram Baugur, í krafti stöðu sinnar á markaði, hefði haldið verðbólgunni uppi.

Á þessu tíma var Hreinn bæði stjórnarformaður Baugs og formaður einkavæðingarnefndar. Hann sagði að tilgangurinn með fundinum í London hafi verið að greina Davíð Oddssyni frá því „augliti til auglitis“ að hann ætlaði að segja sig úr nefndinni.

Hreinn sagði að alvarlegar ásakanir á hendur Baugi hefðu komið fram á fundinum. Davíð hefði m.a sagt að Baugsmenn væru að flytja gróða úr landinu, þeir væru glæpamenn, sem væru auk þess á leið í fangelsi, og þá hefði Davíð sagt að hann væri andvígur því að íslenskir bankar væru að styðja fyrirtæki sem stunduðu áhættufjárfestingu.

Aðspurður sagði Hreinn ekkert hæft í því að Davíð hefði hótað fyrirtækinu opinberri rannsókn þá hafi það ekki gerst að Baugur hefði reynt að bera fé á Davíð Oddsson. Hreinn sagði að allt slíkt væri „fráleitur lygaáróður“.

Jón Gerald Sullenberger, einn hinna ákærðu í málinu, var viðstaddur skýrslutökuna í dag ásamt verjanda sínum.

Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus mun mæta til skýrslutöku eftir hádegi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert