Með heyrúllur á vagni á þjóðveginum

Lögreglan á Hvolsvelli hafði í síðustu viku í tvígang afskipti af ökumönnum dráttavéla á Suðurlandsvegi sem voru með stóra eftirvagna tengda við dráttarvélar sínar. Í báðum tilfellu voru eftirvagnarnir lestaðir heyrúllum, tæplega 20 heyrúllur á hvorum vagni.

Lögreglan segir, að þessir eftirvagnar hafi ekki verið í lögboðnu ástandi. Í öðru tilfellinu virkuðu ekki afturljós, hvorugur eftirvagninn var skráður og þar af leiðandi ekki með skráningarnúmer, heyrúllufarmurinn var ekki bundinn niður á eftirvaginn og engin skjólborð voru á eftirvögnunum.

Ökumenn dráttarvélanna og eigendur eftirvagnanna mega búast við að fá lagaðar á sig sektir vegna þessa. Eftirvagnar og tengitæki sem ekki eru í lögmætu ástandi líkt og í þessum tilfellum og eru í umferð eru stórhættuleg öðrum vegfarendum, að sögn lögreglu. Síðastliðið sumar varð umferðarslys á Fljótshlíðarvegi þegar jeppabifreið var ekið aftan á eftirvagn sem á voru heyrúllur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert