Segir neytendur greiða oft fyrir sama afnotaréttinn

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, veltir á vef sínum upp þeirri spurningu hvort réttlætanlegt sé að neytendur greiði oft fyrir sama afnotaréttinn að tónlist eða mynd. Segir hann að þegar hljóm- eða mynddiskar eyðileggist - ekki síst diskar með barnaefni - sé það „ekki bara vandamál neytenda enda er „varan“ sem maður kaupir ekki bara diskurinn; hann er bara eins konar fylgihlutur til þess að njóta megi tónlistarinnar eða myndarinnar“.

„Diskurinn er í raun umbúðir og ekki réttmætir hagsmunir fyrirtækja að geta selt nýjan og nýjan disk fyrir þá sem skemmast enda væri þá búið að margborga fyrir afnotaréttinn að sama innihaldinu,“ segir Gísli.

„Ímynda mætti sér að almennir neytendaskilmálar við kaup á diskum með höfundaréttarvörðu efni á borð við tónlist og kvikmyndir - fælu í sér rétt til þess að kaupa nýjan disk gegn skilum á þeim eldri. Rökin eru þau að langstærsti hluti verðsins fyrir slíkan disk er fyrir afnotarétt að hugverkinu og öðrum höfundarétti á innihaldinu. Mjög lítill hluti verðsins er gjald fyrir hinar áþreifanlegu umbúðir, diskinn, eða afgreiðslu hans. Um þetta mætti e.t.v. semja með heildarsamningum við samtök höfundaréttarhafa tónlistar og myndefnis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka