Svifryksmengun fór yfir heilsuverndarmörk í höfuðborginni

Svifryksmengun í Reykjavík fór yfir heilsuverndarmörk í dag. Milli klukkan 10 og 10:30 í morgun mældist loftmengunin 186 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásstöð. Viðmiðunarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar eru helstu ráð til að draga úr svifryksmengun að fækka bifreiðarferðum, nota strætó, hjóla eða ganga á áfangastað.

Samkvæmt umhverfissviði borgarinnar er rúmur helmingur svifryks í Reykjavík uppspænt malbik, 10-15% er sót og afgangurinn um 25%, er af náttúrulegum völdum.

Áhrif svifryks á heilsu manna hafa verið áhyggjuefni undanfarin ár en bent hefur verið á að svifryk sé fínasta gerð rykagna sem eigi greiða leið í öndunarfærin. Það borgar sig því, fyrir þá sem eru með viðkvæm öndunarfæri og astma, að halda sig fjarri fjölförnum umferðargötum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert