Kristín Jóhannesdóttir, systir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, mætti til skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi í dag. Saksóknari spurði hana meðal annars út í það hvernig samskiptum Baugs og Fjárfestingarfélagsins Gaums hafi verið háttað, en hún kom til starfa í Gaumi haustið 1999 og starfar hún nú sem framkvæmdarstjóri Gaums.
Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, spurði Kristínu m.a. hvort hún vissi að gert hefði verið samkomulag um að Gaumur nyti sérkjara hjá Baugi, en hún kvaðst ekki muna eftir slíku samkomulagi.
Þá sagðist ekki þekkja til þess þegar Baugur átti að hafa veitt Gaumi meint ólögmætt 100 milljóna kr. lán, enda ekki komin til starfa hjá Gaumi á þeim tíma. En lánið umrædda lýtur að ákærulið númer tvö í Baugsmálinu.
Hún var spurð út í ýmsa þætti er vörðuðu viðskipti Gaums á árunum 1999 til 2002. M.a. um aðild sína sem snýr að fjórða ákæruliðnum, sem varðar viðskipti með Viðskiptatraust, sagði Kristín að hún ef hefði ekki komið að þessu máli.
Í ákærulið 9 er Jón Ásgeir Jóhannesson ákærður fyrir að veita systur sinni, Kristínu Jóhannesdóttur, lán upp á 3,8 milljónir til kaupa á hlutafé í Baugi í febrúar 2001. Í bókhaldi Baugs var lánsfjárhæðin eignfærð viðskiptamannareikning Kristínar 13. febrúar 2001 og var það fyrsta færslan á þeim reikningi. Lánið var ógreitt 28. ágúst 2002. Sigurður Tómas spurði Kristínu að því hvort hún hefði sjálf skráð sig fyrir fyrir hlutafjárkaupunum. Í svari hennar kom fram að það hefði verið lögð áhersla á að að hún tæki þátt í þessu en málið hafi síðan verið óafgreitt. Þá spurði Sigurður Tómas hvort Kristín hefðu óskað eftir greiðslufrest hjá einhverjum hjá Baugi en Kristín sagðist ekki muna eftir því, en sagði að lánið hefði að endingu verið gert upp.
Kristín var auk þess spurð út í tengsl sín við Fjárfar og greindi hún frá því að hún hefði milligönguhlutverki að gegna milli Jóns Ásgeirs og Helga Jóhannessonar, stjórnarformanns Fjárfars. Hún sagði að það hefði ákveðið að hafa þetta með þessum hætti m.a. vegna þess að Jón Ásgeir væri mikið í burtu. Hún sagðist aðspurð ekki hafa komið að samningagerð milli Fjárfars og Baugs.
Sigurður Tómast spurði hana jafnframt út í viðskipti Gaums og Nordica á árunum 1996 til 2001, og sagði Kristín hafa vitað til þess að Gaumur hefði lagt fram ákveðnar fjárhæðir til rekstrar og sagði að hún hefði fengið að vita um þetta þegar hún kom að félaginu fyrst.
Þá var hún spurð út í skemmtibátana þrjá Viking I, Viking II og Thee Viking. Hún sagðist ekkert með þá að gera, utan þess að hún hefði einu sinni komið í Thee Viking. Þá hafi hún gist í bátnum en ekki farið í siglingu. Annars hefðu Jóhannes, faðir hennar, Jón Ásgeir, bróðir hennar, séð alfarið um málefni Thee Viking.
Sigurður Tómas bar ýmis tölvupóstsamskipti undir Kristínu, t.d. pósta sem hún átti að hafa sent Jóni Geraldi Sullenberger í tengslum við Visa-reikninga vegna úttektar Jóns Geralds erlendis, en í einum tölvupóstinum átti Kristín að hafa innt Jón Gerald um Visa-reikninga sem hún hafði ekki fengið. Kristín sagðist ekki kannast við umrætt bréf.
Þess má geta að skýrslutökunni í dag lauk klukkutíma fyrr en áætlað hafði verið og slógu menn á létta strengi þegar ljóst var að skýrslutökunni væri lokið. Arngrímur Ísberg, dómsformaður í málinu, sagði hinsvegar að klukkustundin myndi ekki vera færð til inneignar á viðskiptareikningi saksóknarans, og glotti við tönn.