runarp@mbl.is
HJÁ sýslumanninum í Reykjavík liggja fyrir nokkur þúsund kröfur um fjárnám sem ekki hefur tekist að ljúka þar sem fólk hunsar boðanir sýslumanns. Sýslumanninum finnst fortölur nú fullreyndar og í sérstöku átaki sem mun standa yfir næstu daga munu einkennisklæddir lögreglumenn handtaka fólk sem hefur ekki sinnt boðunum, hvar og hvenær sem í það næst. Á miðvikudag og fimmtudag verður opið hjá sýslumanni til klukkan 22 svo að hægt verði að koma með þá sem ekki næst í á vinnutíma og þá daga setur lögregla stóraukinn mannskap í átakið.
Þeir sem hvað erfiðast gengur að ná í til að hægt sé að gera hjá þeim fjárnám beita ýmsum aðferðum; svara ekki símtölum, hunsa boðanir sem eru afhentar af stefnuvottum sem margítrekuð sendibréf og viti þeir af starfsmönnum sýslumanns fyrir utan neita þeir einfaldlega að opna fyrir þeim.
Á listanum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í hendurnar í fyrstu atrennu eru um 120 nöfn og er líklega óhætt að segja að á honum sé svörtustu sauðina að finna. Í sumum tilfellum er alls ekkert vitað um dvalarstað viðkomandi og því hefur ekki tekist að koma til þeirra boðun.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.