Í dag hefur svifryksmengun mælst að meðaltali frá miðnætti 20.7 míkrógrömm á rúmmetra við Grensás. Heilsuverndarmörk svifryks (PM10) eru 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring. Svifryksmengun hefur farið fimm sinnum yfir heilsuverndarmörk á þessu ári.
Í frétt frá umhverfisstofu Reykjavíkur kemur fram að mest má svifryk fara 23 sinnum yfir hámark í ár og eru aðeins 18 skipti eftir fyrir árið í heild en reynslan hefur sýnt að farið er oft yfir heilsuverndarmörk í marsmánuði.
„Í mars er önnur hver bifreið á nöglum og líkur á að götur séu þurrar og raki lítill. Bifreiðar á vegum Reykjavíkurborgar rykbinda þó stofnbrautir með magnesíumklóríðblöndu en það heldur götunum rökum og dregur þannig úr svifryksmengun í andrúmslofti. Þó er æskilegt að gera tilraun til að hvíla bifreiðar á nagladekkjum í komandi mánuði og nýta aðra samgöngumöguleika sé þess nokkur kostur," samkvæmt frétt umhverfisstofu.
Brugðist er við þegar svifryksmengun fer yfir heilsuverndarmörk með upplýsingum til fjölmiðla, leikskóla og borgarbúum gefin ráð um hvernig draga megi úr mengun. Þeir sem eiga þess kost ættu t.d. að nota hentugar gönguleiðir til og frá áfangastöðum þó ekki í nánd við miklar umferðargötur, hjóla með hjálm, fara í strætó eða fá far hjá öðrum.