Götur í Reykjavík rykbundnar

Úða á bindiefni á götur borgarinnar í vetur til að …
Úða á bindiefni á götur borgarinnar í vetur til að minnka svifryk Bryngjar Gauti

Á vegum Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar er unnið áfram að rykbindingu á helstu umferðaræðum borgarinnar. Sérstakri saltblöndu, sem inniheldur magnesíumklóríð, er úðað á göturnar en hún dregur úr svifryksmyndun með því móti að göturnar haldast lengur rakar og einnig nær saltið að binda rykið eftir að blandan þornar. Blandan frýs ekki fyrr en við mínus 20 gráður og því hverfandi hætta á hálkumyndun vegna þessara aðgerða.

Að sögn Guðna J.Hannessonar, verkstjóra hjá Framkvæmdasviði lofa þessar tilraunir góðu og virðist rykbindingin slá verulega á rykmyndun. Frá því klukkan þrjú í nótt og fram eftir degi var úðað á meginstofnbrautir: Frá gatnamótum Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar, Miklubraut og Hringbraut að Melatorgi; Kringlumýrarbraut frá Kópavogi að Sæbraut; síðan Sæbraut, Reykjanesbraut að Breiðholtsbraut, Stekkjarbakki og Höfðabakki, frá Bæjarhálsi og upp í Breiðholt. Nú síðdegis verður einnig farið um helstu götur í Breiðholti, einkum strætóleiðir, samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdasviði Reykjavíkur.

Nær 40 þúsund lítrum af magnesíumklóríðblöndunni var úðað á götur borgarinnar í dag og akstursleiðin sem lögð var að baki er um 350 km.

Aðfararnótt miðvikudags verður áfram úðað og fyrirhugað er að úða á Bústaðaveg, Suðurlandsbraut, Grensásveg, Háaleitisbraut og Lönguhlíð, svo helstu götur séu nefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert