Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur nú til skoðunar mál er varðar meint stórfelld tollalagabrot þriggja íslenskra bifreiðainnflytjenda. Grunsemdir vöknuðu hjá íslenskum tollyfirvöldum á síðasta ári um að innkaupsverð fjölda bifreiða er fluttar voru til landsins hefði verið ranglega talið fram við tollafgreiðslu. Bandarísk tollyfirvöld aðstoðuðu þau íslensku við að hafa uppi á seljendum bifreiðanna ytra og kom í ljós að 62 bifreiðar voru seldar á hærra verði í Bandaríkjunum en upp var gefið í tollskýrslum hér á landi. Verið er að kanna hvort sama hafi verið uppi á teningnum hvað fjölda annarra bifreiða varðar.
Málið enn á byrjunarreit
Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra fékk málið í hendur í fyrra og segir Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, að málið sé enn á byrjunarreit, enginn hafi verið boðaður í skýrslutöku og ekki hafi verið tekin ákvörðun um frekari rannsókn málsins. Að sögn Helga snýst málið um að kaupverð bifreiðanna í Bandaríkjunum er tilgreint lægra á aðflutningsskýrslu en það er í raun og á grundvelli rangra gagna komist innflytjendur hjá greiðslu aðflutningsgjalda að hluta. Helgi Magnús segir áþekk mál hafa komið upp áður hjá lögreglu en sönnunarstaðan hafi oft verið erfið. Nefnir hann sem dæmi að seljendur í Bandaríkjunum hafi neitað að koma til Íslands og bera vitni í opinberu máli og þar með hafi sök ekki verið talin sönnuð. Aðspurður hvort eitthvað varðandi málið sem upp er komið upp gefi lögreglu tilefni til þess að ætla að nú takist betur til, segir Helgi að ekkert sé hægt að segja um það á þessu stigi málsins, til þess sé rannsókn þess alltof stutt á veg komin.