Sparisjóður Svarfdæla kostar byggingu menningarhúss á Dalvík

Tölvuteikning af nýja menningarhúsinu á Dalvík
Tölvuteikning af nýja menningarhúsinu á Dalvík

Í ljósi góðrar afkomu Sparisjóðs Svarfdæla á árinu 2006 hefur stjórn hans samþykkt að leggja til við aðalfund að sparisjóðurinn kosti byggingu menningarhúss á Dalvík samkvæmt fyrirliggjandi teikningum sem kynntar hafa verið bæjarráði Dalvíkurbyggðar. Húsið mun meðal annars rúma fjölnotasal, bókasafn, kaffihús og upplýsingamiðstöð og mun Dalvíkurbyggð, fyrir hönd íbúa sveitarfélagsins, taka við rekstri menningarhússins að byggingu lokinni. Áformað er að húsið komist í gagnið fyrir mitt ár 2008. Áætlaður byggingarkostnaður, og þar með andvirði þessarar gjafar til íbúa í Dalvíkurbyggð, er um 200 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu.

Áætlað er að húsið verði um 700 fermetrar að stærð og samþykkti umhverfisráð Dalvíkurbyggðar á fundi í gær, með fyrirvara um breytingu deiliskipulags, umsókn Sparisjóðs Svarfæla um byggingarlóð sunnan Ráðhússins á Dalvík. Fanney Hauksdóttir, arkitekt, er hönnuður hússins og styðst hún m.a. við smárann, merki sparisjóðanna, í formhönnun þess.

Í húsinu verður fjölnotasalur sem mun nýtast til ýmissa samkoma, ráðstefna, sýninga, smærri tónleika og annarra listviðburða ýmis konar. Þá verða útlánadeild bókasafns Dalvíkurbyggðar og afgreiðsla héraðsskjalasafns flutt úr kjallara Ráðhússins í nýja húsið, upplýsingamiðstöð verður í húsinu, kaffihús og fleira en meginhugsunin er sú að gæða húsið lífi og starfi árið um kring.

Góð afkoma notuð til verkefna í heimabyggð

Sparisjóður Svarfdæla rekur sérstakan menningarsjóð sem styrkir fjöldamörg verkefni í heimabyggð ár hvert en hefur þess utan styrkt stór sem smá verkefni til framfara í mannlífi Dalvíkurbyggðar. Má í því sambandi benda á byggingu sparkvallar á Dalvík fyrir tveimur árum og kaup á snjóframleiðslubyssum fyrir skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli á síðasta ári, samkvæmt tilkynningu.

Friðrik Friðriksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla, segir góða afkomu á undanförnum árum og sér í lagi á árinu 2006, gera sjóðnum kleift að ráðast í þetta mikla og metnaðarfulla verkefni.

„Á undanförnum árum hefur afkoma Sparisjóðs Svarfdæla verið mjög góð. Eigið fé sparisjóðsins hefur í samræmi við það vaxið mjög mikið og nemur nú tæpum 2 milljörðum króna. Þessa góðu afkomu sparisjóðsins má að mestu rekja til mikillar hækkunar á hlutabréfum í eigu sjóðsins, einkum eignarhluta í Kaupþingi hf. og Exista hf. Í tillögu stjórnarinnar um byggingu menningarhússins felst sú afstaða hennar að rétt sé að láta það samfélag sem sparisjóðurinn starfar í njóta hlutdeildar í góðri afkomu ársins með áþreifanlegum og táknrænum hætti. Það er í þeim anda sem sparisjóðurinn hefur starfað um langan tíma og mun vonandi gera um langa framtíð,” segir Friðrik.

Eins og áður segir mun aðalfundur sparisjóðsins fá tillögu stjórnar til afgreiðslu þann 16. mars næstkomandi. Að afgreiðslu aðalfundar lokinni mun byggingarnefnd sparisjóðsins og Dalvíkurbyggðar væntanlega taka til starfa og hafa yfirumsjón með framkvæmdunum.

Stjórn Sparisjóðs Svarfdæla hefur haft náið samráð við endurskoðendur sjóðsins og Fjármálaeftirlitið við mótun þessarar tillögu, enda um óvenjulega stóra gjöf að ræða af ekki stærri stofnun.

„Áformin hafa verið samþykkt af þessum aðilum og telur stjórn sjóðsins einsýnt að þrátt fyrir hér verði varið um 200 milljónum af eigið fé til samfélagslegra verkefna verði eiginfjárstaða sparisjóðsins mjög sterk eftir sem áður,” segir Jóhann Antonsson, stjórnarformaður.

Sparisjóður Svarfdæla hagnaðist um rúmlega 900 milljónir króna á síðasta ári og er það metafkoma hjá sjóðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert