Á fundi einstaklinga úr Átakshópi öryrkja, sem haldinn var í dag, var samþykkt tillaga um að standa að stofnun stjórnmálahreyfingar um framboð aldraðra og öryrkja, náist um það samstaða á fundi Baráttuhóps eldri borgara og öryrkja á sunnudaginn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu í dag.
Einnig voru á fundinum samþykkt drög að stefnu framboðsins, og segir þar m.a.:
„Flokkurinn er sprottinn af þeirri nauðsyn að leiðrétta kjör lífeyrisþega hér á landi. Óumdeilt er að hið mikla góðæri, sem ríkt hefur til lands og sjávar undanfarinn hálfan annan áratug, hefur ekki skilað sér til lífeyrisþega á sama hátt og flestra, annarra þegna landsins. Lífskjör aldraðra og fatlaðra eru mun lakari hér á landi en þekkist í öðrum norrænum löndum enda fer minni hluti vergrar þjóðarframleiðslu til almannatrygginga á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum.
Íslendingar búa við þá sérstöðu að undanfarna áratugi hefur verið byggt hér upp öflugt lífeyrissjóðakerfi. Er því ætlað að bæta lífskjör aldraðra og þeirra öryrkja sem hafa unnið sér inn ákveðinn rétt í sjóðunum. Vegna mikilla tenginga tekna úr lífeyrissjóðum og bóta almannatrygginga er flestum eldriborgurum og öryrkjum haldið í viðjum fátæktar.
Flokkurinn vill breyta þeim áherslum, sem ríkt hafa í íslensku samfélagi undanfarna áratugi. Aldrað og fatlað fólk er hluti þjóðarinnar og góð lífskjör þess stuðla að bættum þjóðarhag. Flokkurinn leggur áherslu á lýðræðisleg manngildi sem nýtast öllum þegnum þessa lands. Stefna flokksins miðar að því að búa þannig um hnútana að allir Íslendingar fái lifað með reisn.
Flokkurinn leggur kapp á að hlusta á þjóðina. Hann gerir sér ljóst að þingmenn hans eru trúnaðarmenn þjóðarinnar, kjörnir til að framkvæma vilja hennar.
Flokkurinn leggur áherslu á að stjórn þjóðarbúsins sé einfölduð, gegnsæ og að ákvarðanir byggist á heiðarleika og tryggi velferð Íslendinga allra.
Flokkurinn heitir því að standa ekki að inngöngu í ESB eða upptöku Evru í stað krónu án þess að vilji þjóðarinnar til þess sé staðfestur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hið sama gildir um einkavæðingu þeirra ríkisstofnana, fyrirtækja, þjónustu og mannvirkja sem eru undirstaða að menntun, menningu, velferð, frelsi, mannúð, sjálfstæði þjóðarinnar og hvers einstaklings. Hið sama á við um meiriháttar jarðrask s.s. vegna stíflugerða og lagningar vega um viðkvæm svæði.“