Leitarvél Icelandair hefur verið breytt þannig að nú sést heildarverð flugferðarinnar frá upphafi bókunarferlisins, þ.e. að meðtöldum sköttum og gjöldum. Sami háttur er á bókunarvél British Airways en hjá Iceland Express kemur heildarverðið ekki fram fyrr en á öðru stigi bókunarinnar.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði að breytingin hefði verið gerð í framhaldi af umræðu í útlöndum um hvernig ætti að greina frá sköttum og gjöldum sem leggjast á flugferðir og nýlegum tilmælum frá neytendastofu og talsmanni neytenda um þetta efni. Aðspurður sagði hann að í auglýsingum Icelandair hefði heildarverðið alltaf komið fram og eina breytingin, sem nú væri gerð, lyti að bókunarvélinni.
Talsmaður British Airways á Íslandi, Bolli R. Valgarðsson, sagði að heildarverð flugferða hefði verið tilgreint á vef félagsins frá því það hóf að selja flugferðir til og frá Íslandi.
Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express, sagði þetta samræmast tilmælum talsmanns neytenda og sagði ennfremur að í öllum auglýsingum fyrirtækisins væri heildarverðið tilgreint. "Eini staðurinn þar sem þetta er aðskilið er í bókunarvélinni," sagði hann. Ekki hefði verið rætt um að breyta því.