Lögreglan á Hvolsvelli handtók um níuleytið í morgun mann á bæ í Rangárþingi ytra, sem haft hafði í hótunum við sambýliskonu sína. Til öryggis var ákveðið að kalla til lögregluna á Selfossi til aðstoðar auk sérsveitar Ríkislögreglustjóra og tóku því alls um tíu manns þátt í aðgerðinni.
Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var maðurinn ölvaður og vitað til þess að hann hefði verið til vandræða undanfarna daga en þegar sambýliskona hans hringdi eftir aðstoð var gripið til aðgerða.
Maðurinn hafði í hótunum við lögreglu í síma en sýndi ekki mótþróa þegar lögregla kom á staðinn. Hann gistir nú fangageymslur lögreglunnar á Selfossi, og verður yfirheyrður þegar hann hefur sofið úr sér.