Heimili og skóli lýsa yfir áhyggjum af viðræðuslitum kennara og launanefndar

Á fundi stjórnar Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra sem haldinn var föstudaginn 23. febrúar 2007 var eftirfarandi ályktun samþykkt.

„Heimili og skóli – landssamtök foreldra lýsa áhyggjum sínum yfir því að Launanefnd sveitarfélaga og Félag grunnskólakennara hafa slitið viðræðum um framkvæmd endurskoðunarákvæðis í samningum aðila frá nóvember 2004. Á sama tíma og stjórnin lýsir vonbrigðum sínum með að tíminn frá undirskrift samnings hafi ekki verið nýttur betur telur hún fulltreynt að hægt verði að ná fram raunverulegum kjarabótum í núverandi samningskerfi.

Á sama tíma og sátt meðal aðila virðist ekki innan seilingar berast upplýsingar frá Hagstofunni um að brotthvarf réttindakennara frá störfum hafi aldrei mælst hærra. Þessi staða ógnar ekki einungis starfsfrið innan skólans heldur einnig skipulagningu næsta skólaárs.

Foreldrar hafa miklar áhyggjur af því að skólahald kunni að raskast á næstu mánuðum nái aðilar ekki saman um raunverulegar kjarabætur til kennara. Kennarar eru kjölfesta skólastarfs og foreldrar gera til þeirra ríkar faglegar kröfur. Að sama skapi þarf að tryggja að laun séu í samræmi við menntun og þá ábyrgð og vinnuálag sem starfinu fylgir.

Skólinn er líka mikilvæg kjölfesta í lífi hvers barns og  börnin okkar eiga skilyrðislausan rétt til náms. Fyrir einungis tveimur árum voru 45 þúsund börn svipt rétti sínum til náms í rúmar sjö vikur. Slík staða má aldrei aftur koma upp og foreldrar treysta því að samningsaðilar leiti, á næstu vikum, allra leiða til að tryggja lausn."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka