Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri úthlutaði í dag 10 námsstyrkjum úr Guðrúnarsjóði, en sjóðurinn var settur á fót á síðasta ári í samstarfi við Eflingu- stéttarfélag í tilefni af sjötugsafmæli Guðrúnar Halldórsdóttur fyrrverandi forstöðukonu Námsflokka Reykjavíkur. Í stjórn sjóðsins sitja Kristín A. Árnadóttir, formaður, Guðrún Halldórsdóttir og Þórunn Sveinbjörnsdóttir.
Veittir voru 10 námsstyrkir til jafnmargra einstaklinga, hver að upphæð 50.000 kr. Í hópi þeirra er hljóta styrkina eru verkakonur, einstæðar mæður og ungmenni af erlendum uppruna. Sumir styrkþega hafa sýnt það þrekvirki að berjast áfram í námi þrátt fyrir lesblindu, aðrir hófu nám þrátt fyrir að vera komnir á miðjan aldur og enn aðrir hafa glímt við nám á tungumáli sem er ekki þeirra fyrsta mál.