Baugsmálið: Vitni gagnrýndu vinnubrögð lögreglu

Skýrslutökur í Héraðsdómi Reykjavíkur í Baugsmálinu héldu áfram í dag. Meðal þeirra sem báru vitni í dag voru Auðbjörg Friðgeirsdóttir, sem starfaði sem innri endurskoðandi Baugs á árunum 2000-2005, og Jóhanna Waagfjörð, sem var fjármálastjóri Baugs frá september 2001 til 2002. Báðar gagnrýndu þær vinnubrögð lögreglunnar við rannsókn málsins fyrir dómi í dag.

Settur saksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, spurði Jóhönnu, sem nú starfar sem framkvæmdastjóri Haga, m.a. út í færslur sem ákæruvaldið telur að hafi verið ólögmæt lán til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, og félaga í eigu hans og fjölskyldu hans. Þá var hún einnig spurð út í eldri framburð sinn í lögregluskýrslu, frá árinu 2003, þar sem hún nefndi umræddar færslur sem lán. Jóhanna gaf þær skýringar á þeirri orðanotkun sinni, fyrir dómi í dag, að lögreglumaðurinn sem yfirheyrði hana hafi ítrekað talað um lán. Því gæti vel verið að hún hafi notað þetta orð vegna þess að lögreglumaðurinn hafi alltaf notað orðið lán. Hún segist ekkert hafa haft sérstaka skoðun á því hvort þetta hafi verið lán eða ekki.

Jóhanna gagnrýndi lögregluna mjög og sagði að við skýrslutöku hjá lögreglu hafi spurningar verið bornar upp með þeim hætti að lögreglumaðurinn hefði fullyrt að um að ólögmæt háttsemi væri um að ræða.

Bæði Jóhanna og Auðbjörg sögðu lögregluna hafa spurt með þeim hætti að ljóst væri að um ólöglegt athæfi hafi verið að ræða. Auðbjörg talaði sérstaklega um að lögreglan hafi gengið harkalega fram, og nefndi hún Arnar Jensson sérstaklega hvað það snertir. Hún segir að Arnar hafi ítrekað í sífellu við sig að henni bæri að segja satt og rétt frá, og þá hafi verið látið liggja að því að hún væri nánast sek í málinu.

Jóhanna gagnrýndi einnig þær spurningar sem Arnar Jensson beindi að henni við skýrslutöku lögreglu í málinu. Meðal annarra sem tekin var skýrsla af fyrir dómi í dag var Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Ivest og stjórnarformaður Marels. Hann var starfsmaður Gildingar á árunum 2000- 2002, og samdi sem slíkur um kaup Gildingar á 9% hlut í Arcadia, en saksóknari spurði hann m.a. út í þau kaup.

Nánari umfjöllun verður að finna í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert