Verð á bensíni og dísilolíu hækkaði um 1,80 til 2,00 krónur á lítrann sl. mánudag. Skeljungur reið á vaðið og hækkaði verðið um tvær krónur, bæði í sjálfsafgreiðslu og með fullri þjónustu. Hin olíufélögin fylgdu í kjölfarið. Bensínlítrinn kostar nú 111 til 113 krónur og dísillítrinn 112 til 113,7 krónur.
Hækkanirnar má rekja til mikillar eftirspurnar eftir bæði bensíni og dísilolíu á heimsmarkaði sem framboðið virðist ekki ná að seðja. 24. janúar kostaði tonn af bensíni 497 dollara en á þriðjudaginn fór verðið yfir 600 dollara. Svo hátt innkaupsverð hefur ekki sést síðan í fyrrasumar, en þá fór tonnið í um 780 dollara og bensínlítrinn á Íslandi kostaði 131,20 þegar hann var dýrastur.
Bensínverð hefur víða hækkað meira en á Íslandi og til dæmis um það má nefna að bensínlítrinn hjá Q8 í Danmörku kostar nú um það bil 7,80 krónum meira en hann kostaði fyrir rúmum mánuði.