Ekkert banaslys í umferðinni það sem af er árinu

Ekkert banaslys hefur verið í umferðinni það sem af er …
Ekkert banaslys hefur verið í umferðinni það sem af er ári. mbl.is/RAX

Ekkert banaslys hefur orðið í umferðinni á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. Á sama tíma á síðasta ári höfðu fjórir látist í umferðarslysum og ef ástandið væri eins og í fyrra, þegar banaslys í umferðinni varð tólfta hvern dag að meðaltali væru þau orðin 6 talsins.

Í tilkynningu frá Umferðarstofu kemur fram að mikilvægt er að þakka ökumönnum fyrir þeirra framlag til að staðan sé þetta hagstæð. Einnig er ástæða til að vekja athygli á skipulagsbreytingum hjá lögreglu og auknu eftirliti, sem án efa hefur í för með sér fækkun alvarlegra slysa.

„Markmið umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda er, að hér á landi verði ekki fleiri banaslys og alvarleg slys í umferðinni en í þeim löndum þar sem ástandið er best og Íslendingar vilja bera sig saman við.

Mikilvægir þætti til að þessi þróun haldi áfram eru að virða hraðatakmarkanir, muna eftir að nota öryggisbúnað í bílum og umfram allt að nota hann rétt og gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir akstur fólks undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna.

Árið 2006 var næstversta ár varðandi banaslys á Íslandi í aldarfjórðung. Slíkt getur siðmenntuð þjóð ekki sætt sig við og því skiptir miklu máli að allir landsmenn taki höndum saman og leggi sig fram til að auka öryggi sitt og annarra vegfarenda," samkvæmt tilkynningu frá Umferðarstofu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert