Hæstiréttur hefur sýknað lækni af bótakröfu konu sem óskaði eftir því að læknirinn græddi í sig getnaðarvarnarstaf undir húð. Konan varð þunguð skömmu eftir aðgerðina og í ljós kom að stafurinn hafði aldrei verið settur undir húðina. Hæstiréttur taldi hins vegar ekki að læknirinn hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi þar sem hann hefði fylgt leiðbeiningum um ísetningu getnaðarvarnarstafsins og talið sig geta fundið fyrir honum að ísetningu lokinni.
Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að konan vildi fresta barneignum og bað því lækninn að græða í sig umrædda getnaðarvörn. Rúmum mánuði síðar var þungun konunnar staðfest með þungunarprófi og fór fóstureyðing fram í kjölfarið. Í ljós kom að stafurinn hafði aldrei verið settur undir húðina.
Konan höfðaði mál á hendur lækninum og krafðist 2,5 milljóna króna í bætur vegna andlegs áfalls af völdum fóstureyðingarinnar.
Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að læknirinn hefði ekki sýnt af sér stórfellt gáleysi umrætt sinn og sýknaði lækninn því af bótakröfunni.