Háskóli Íslands nýtur mest trausts í Þjóðarpúlsi Gallup

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Þorkell

Háskóli Íslands nýtur mests trausts, eða 85%, meðal þeirra sem tóku þátt í Þjóðarpúlsi Capacent Gallup. Af þeim átta stofnunum sem spurt var um nýtur Alþingi minnst trausts eða 29%. Gallup hefur kannað traust almennings til nokkurra stofnana frá árinu 1993. Líkt og undanfarin ár var nú spurt um átta stofnanir.

Mælingar sem þessar gefa vísbendingu um afstöðu fólks til stofnana á hverjum tíma. Traust til allra stofnana hefur dalað, í mismiklum mæli, frá því í febrúar 2006.

Alþingi nýtur minnst trausts en einungis 29% svarenda sögðust bera traust til þingsins, sem er lækkun um 14 prósentustig frá síðasta ári og hefur aldrei verið eins lítið síðan mælingar hófust í ágúst 1993.

Traust til dómskerfisins er 31%, sem er einnig minna en mælst hefur áður og minnkaði um 12 prósentustig frá síðustu mælingu.

Háskóli Íslands hefur frá upphafi verið sú stofnun sem nýtur mests trausts, en það mælist nú 85%. Lögreglan nýtur aftur mests trausts almennings á eftir Háskólanum. 78% þjóðarinnar bera traust til lögreglunnar sem er einu prósentustigi minna en í febrúar á síðasta ári.

Traust til lögreglunnar í síðustu tveimur mælingum hefur ekki verið eins mikið síðan 1993 þegar það var 84%. Af öðrum breytingum vekur athygli að traust til ríkissáttasemjara hefur rýrnað um 9 prósentustig og mælist nú 47%.

Hjá öðrum stofnunum mælast minni breytingar en traust til heilbrigðiskerfisins (er 70%) og þjóðkirkjunnar (er 52%) hefur minnkað um 3 prósentustig. Umboðsmaður Alþingis nýtur einnig svipaðs trausts og í síðustu mælingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert