Horfið frá tekjutengdum fæðingarorlofsgreiðslum

Reuters

Stjórn Fjölskyldu- og styrktarsjóðs BHM, BSRB og KÍ (FOS) hefur tekið ákvörðun um að breyta þeim reglum sem hafa verið í gildi um greiðslur í fæðingarorlofi. Frá og með 1. júní næstkomandi verður horfið frá tekjutengdum greiðslum til mæðra og þess í stað greiddir fæðingarstyrkir til foreldra. Styrkirnir verða jafnháir til karla og kvenna en hliðsjón höfð af starfshlutfalli.

„Ástæða þessara breytinga er sú að þrýstingur hefur farið vaxandi fyrir því að greiðslur gangi jafnt til beggja foreldra og hefur komið ábending frá Jafnréttisstofu í þá veru. Þá hafa sjóðsstjórninni borist erindi þess efnis frá einstaklingum að þeir hafi í hyggju að láta reyna á rétt feðra til greiðslna úr sjóðnum fyrir dómstólum. Ljóst er að við þá breytingu að greiðslur gangi til beggja foreldra munu þær dreifast á fleiri einstaklinga og lækkar fyrir bragðið sú upphæð sem áður féll í hlut mæðra.

Önnur ástæða þess að nauðsynlegt er að breyta greiðslufyrirkomulaginu hjá FOS er sú að sjóðurinn stendur höllum fæti eftir einhliða ákvörðun stjórnvalda um að breyta viðmiðunartímabili greiðslna úr Fæðingarorlofsjóði. Við það lækkuðu greiðslur úr þeim sjóði verulega og þar sem FOS hefur bætt mæðrum tekjutap sem þær verða fyrir í fæðingarorlofi segir sig sjálft að því lægri sem greiðslur Fæðingarorlofsjóðs verða, þeim mun hærri þurfa uppbótargreiðslurnar úr FOS sjóðnum að vera. Þessi einhliða ákvörðun stjórnvalda velti miklum kostnaði á Fjölskyldu- og styrktarsjóð BHM, BSRB og KÍ. Þetta hefur haft það í för með sér að iðgjöldin standa ekki undir þeim bótum sem sjóðnum var ætlað að greiða til kvenna. Núverandi rekstravandi sjóðsins skrifast á reikning stjórnvalda enda til kominn vegna ákvarðana sem BHM, BSRB og KÍ höfðu enga aðkomu að," að því er segir á vef BSRB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert