Meðferð hættulegra efna í grunnskólum ábótavant

Í skýrslunni er mælt með því að kannað verði hvort …
Í skýrslunni er mælt með því að kannað verði hvort nauðsynlegt sé að nota efni sem flokkast sem eitur i grunnskólum mbl.is/Árni Torfason

Mikið er um að unnið sé með gömul efni og varnaðarmerkta efnavöru sem jafnvel eru hættulegar heilsu í grunnskólum landsins. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Þá segir í skýrslunni að mikið vanti upp á að merkingar séu í samræmi við reglur, þ.e. á íslenskaðar.

Skýrslan var unnin á vegum Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Farið var í alls 63 grunnskóla og aðstæður kannaðar, en alls eru 183 á landinu öllu.

Segir m.a. að mun fátíðara sé að læst geymsla sé fyrir hættuleg efni í smíðastofum en efnafræðistofum í skólum, þótt verið sé að vinna með eða geyma álíka hættuleg efni. Stinkskápur eða samsvarandi búnaður var aðeins til staðar í fáeinum af þeim smíðastofum sem skoðaðar voru.

Þá þótti loftræsting léleg eða frekar léleg í um helmingi þeirra skóla sem könnunin nær til, en viðunandi eða góð í um helmingi.

Í skýrslunni er mælt með að námskeið verði haldin fyrir grunnskólakennara um notkun og merkingar hættulegra efna, og að samdar verði leiðbeinandi reglur um meðferð slikra efna.

Þá er mælt með því að athugað verði hvort nauðsynlegt sé að nota efni sem flokkuð eru sem eitur, og að skipt verði út hættulegum efnum fyrir hættuminni. Auk þess er mælst til þess að aðstaða til að geyma og nota hættuleg efni í myndmenntastofum grunnskólanna verði skoðuð og bætt úr aðstöðu.

Skýrslan í heild sinni á vef Umhverfisstofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert